• Á Tanga er aðaláhersla á útinám og umhverfismennt, að læra á umhverfi sitt með eigin upplifunum og rannsóknum. Við vinnum með alla námsþætti í útinámi, lærum að lesa í umhverfið og veðrið. Við nýtum öll skilningarvit okkar þegar við erum úti í náttúrunni, horfa, hlusta, snerta, handleika, bragða, flokka, bera saman, rannsaka og draga álýktanir. Til að læra á veður er t.d best að vera úti í mismunandi veðri, sjá veðrið, finna fyrir því, upplifa, ræða og meta.
  • Í aðalnámskrá leikskóla 2011 segir" Börn ræða og kanna samhengi fyrirbæra í umhverfi sínu. Ýta þarf undir forvitni, ígrundun og vangaveltur barna og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. jafnframt ber að að ýta undir vísindalega hugsun og aðstoða börn við að sjá tengsl, orsök og afleiðingu og styrkja skilning þeirra á hugmyndum og hugtökum. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta"
  • Í útinámi læra börn á nærumhverfi sitt, við tölum um kennileiti, örnefni, nöfn á götum, nöfn á fjöllum.
  • Fylgjumst með árstíðum, njótum þes sem hver og ein hefur uppá að bjóða.
  • Við eldum úti reglulega og höfum útikakó í hverjum mánuði. Börnin læra að veður hefur ekki áhrif á viðburði heldur aðlögum við okkur að veðrinu, ef það er kalt þá þarf að klæða sig betur, ef það er blautt þurfum við regnföt...við látum ekki veðrið stoppa okkur en sköpum aðstæður sem við njótum okkar vel í.
  • Við erum með nokkrar áherslur sem eru bundnar við ákveðna árstíð og svo eru önnur verkefni sem eiga við allt skólaárið.
  • Á haustinn byrjum við á að kynna þeim smátt og smátt nærumhverfið, tökum veðrið og lærum hvernig við getum metið veður. Lærum mismunandi orð yfir veður, hvað breytist í umhverfinu á haustin. við erum í útileikfimi á haustin og mjjög mikið á ferðinni við mismunandi aðstæður sem styrkja hreyfifærni barna. Við erum mikið með málörvun og stærðfræði úti.
  • Á veturna eru aðeins öðruvísi verkefni en þó í grunnin sömu og ganga allt skólaárið. Við fögnum fyrsta vetrardegi, fylgjumst með þegar sólin hverfur úr firðinum okkar og ræðum náttúruöflin. Ævintýraferðir í alls konar veðri, jólaball úti. Vetrarsólstöður er magnað fyrirbæri, við ræðum það og upplifum stysta dag ársins úti. Við æfum okkur á gönguskíðum, jafnvægi og tækni og hvernig hægt er að leika sér á skíðunum. Við höldum jafnvel vetrarleika með ýmsum vetraríþróttum og gleði. Fylgjumst svo vel með því þegar sólin kemur aftur í fjörðin okkar og fögnum með viðeigandi hætti. Börn verða svo miklu meðvitaðri um umhverfi sitt og taka betur eftir alls konar. Það er líka gaman að gera alls konar rannsóknir og samanburð, t.d hvort öskudagur eigi 18 bræður.
  • Á vorin er mikil áhersla á að fylgjast með hvernig náttúran lifnar við eftir veturinn og vinnum alls konar verkefni tengt því.
  • Á sumrin erum við með spennandi sumardagskrá og marga viðburði. Útskriftarferð upp í Naustahvilft og í Tunguskóg, það er stórkostleg upplifun fyrir börn að ganga upp í hvilftina og upplifa útsýnið yfir allan fjörðin. Notum tækifærið og rifjum upp kennileiti og nöfn sem þau hafa verið að vinna með yfir veturinn. Síðan eru ýmsar ævintýraferðir um nánasta umhverfi og náttúran nýtt, fjöll, fjara, skógur, hafnir, miðbær. Við gróðursetjum útskriftartré í lund sem við höfum fengið úthlutað. Að lokum stór ratleikur með verkefnum um bæinn okkar og umhverfi.
  • Til að læra um náttúruna og læra af henni þurfa börn að verja tíma í henni. Staldra við og fá tækifæri til að upplifakyrrð og ró án neikvæðra áhrifa. rannsóknir sýna að náttúran hefur jákvæð áhrif á á líf og heilsu barna.
  • Tími, tækifæri og umhverfi. Það að þjálfa færni barna og alla þroskaþætti í náttúrulegum aðstæðum hefur áhrif á lífsgæði um ókomna tíð.
  • með útiveru og útinámi eflum við börnin og þessir þættir eru meðal þeirra; seigla, hreyfifærni, skynþroski, þol, styrkur, liðleiki, samhæfing, jafnvægi og kjarkur